top of page
Sagan

Austurbæjarbíó var reist af nokkrum athafnamönnum í Reykjavík á árunum 1945 til 1947 og formlega opnað 25. október það ár. Aðstandendur voru jafnframt forystumenn Tónlistarfélagsins í Reykjavík sem stofnað var 1932. Hönnuðir hússins voru arkitektarnir Hörður Bjarnason og Gunnlaugur Pálsson.

Húsið var stærsta samkomuhús landsins við opnun þess. Frá upphafi var vinsælt að halda tónleika í húsinu þegar ekki voru sýndar kvikmyndir. Húsið var vettvangur fyrir miðnæturrevíur á vegum Íslenzkra tóna og síðar Leikfélags Reykjavíkur til fjáröflunar fyrir Borgarleikhúsið.

1955 til 1975 var skemmtistaðurinn Silfurtunglið rekinn á efri hæð hússins. Margir af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar áttu þar samastað, s.s. Ellý Vilhjálms og Raggi Bjarna að ógleymdum sjálfum Sæma Rokk.

Fjölmargar þekktar erlendar hljómsveitir héldu tónleika í húsinu á senni hluta s.l. aldar, s.s. „Liverpool-bítlarnir“ The Swinging Blue Jeans í febrúar 1965 og Kinks á hátindi frægðar sinnar í september sama ár.

Á árunum 1987-2002 rak Sambíó kvikmyndasali í húsinu sem þá var nefnt Bíóborgin. Utan aðalsalarins voru innréttaðir tveir minni salir á efri hæð hússins þar sem áður var Silfurtunglið. Bíóborgin var fyrsta kvikmyndahúsið á Íslandi sem setti upp THX-hljóðkerfi.

Þegar kvikmyndasýningum var hætt í húsinu stóð til að rífa það og reisa fjölbýlishús. Horfið var frá því og fékk húsið aftur sitt fyrra hlutverk sem tónlistar- og leikhús. Nafni hússins var breytt í Austurbær og fram til 2016 voru settir upp nokkrir vinsælir söngleikir, en einnig var húsið notað fyrir sjónvarpsútsendingar, s.s. fyrstu þáttaröðina af Ísland Got Talent 2014.

Árið 2017 var húsið rækilega endurnýjað, nýr salur innréttaður á jarðhæð hússins og ferðamannasýningin „Tales from Iceland“ opnuð á tveimur hæðum í norðurhluta hússins. Í byrjun árs 2018 voru stólarnir fjarlægðir úr gamla bíósalnum og gólf hans sléttað. Salnum var þannig breytt í fjölnota viðburðarsal og hefur hann síðan verið notaður fyrir ótal veislur, fundi, tónleika og leikverk. Meðal tónlistarmanna sem hafa haldið tónleika í Austurbæ á síðusta árum má nefna, Pálma Gunnarsson, Flóna, Pál Óskar Hjálmtýsson, Stjórnina og Hatari.

Á vormánuðum 2020 var sýningunni „Tales from Iceland“ lokað og nú eru allir þrír salir hússins notaðir fyrir viðburði á ýmsu tagi. Í húsinu er heimild fyrir 1,000 gesti samtímis.

 Snorrabraut 37  Reykjavík  |  S:518 4000 hallo@austurbaer101.is

bottom of page